Grátkór ofbeldis í miðbænum.
14.8.2007 | 08:22
Undanfarin misseri hefur maður þurft að hlusta á grátkór þeirra sem tuða um ofbeldi í miðbænum hafi stóraukist og nú sé svo komið að stórhættulegt sé að rölta um Austurstræti eftir miðnætti um helgar.
Pólítíkusar koma í Kastljós og reyna að greina vandann og lögreglustjóri sem ég tel að sé svo ungur að árum að hann hreinlega annaðhvort muni ekki eftir eða hafi aldrei heyrt talað um Hallærisplanið hér á árum áður, kemur og segir að ástandið sé svo slæmt að nú dugi ekkert minna til en þjóðarátak til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi.
Nú er það svo að ég á heima ekki langt frá miðbænum og fyrstu tvö árin eftir að ég flutti á skerið aftur þá bjó ég í 101. Ég á oft leið um miðbæinn og sérstaklega í gegnum gamla Hallærisplanið sem er Ingólfstorg fyrir þá sem ekki vissu fyrir. Afhverju hét Hallærisplanið þessu nafni ? Jú vegna þess að fólk hafði ekkert annað að gera á árunum upp úr 1970 en að drekka vodka í kók úr flösku og kasta henni síðan í hausinn á einhverjum vegfaranda eða þá í gegnum rúðu í miðbænum. Eru menn búnir að gleyma því hvernig Austurstræti var brynvarið fyrir helgarnar ? Krossviðsflekar nelgdir fyrir glugga á föstudagseftirmiðdegi til að verja stórar og dýrar rúður verslana þar sem Thorvaldsensbar og ríkið í Austurstræti er í dag .
Eru menn búnir að gleyma klíku uppgjörunum í miðbænum ? Grænu jakkarnir úr kópavogi sem voru hættulegastir vegna fjölda og hversu vel þeir stóðu saman gegn Breiðholtsskrílnum. Hópslagsmál voru venjuleg um helgar, Fellahverfið og Seljahverfið áttu í blóðugum átökum þess á milli.
Fyrir mér er miðbærinn frekar friðsamlegur miðað við það sem ég átti að venjast hér á árum áður hvað sem öllu tuði um að 101 sé orðin stórhættulegt hverfi í anda Bronx á 5 áratugnum. Jú menn hafa hátt, jú það eru stympingar, jú það er ráðist á vegfarendur en það hefur ekki aukist nema síður sé.. vil taka það fram að fólki hefur fjölgað umtalsvert í Rvk á þessum árum frá því að Halló var og hét. Ég man eftir því að hafa lent í líkamsáras þegar ég var á göngu ásamt félögum mínum þar sem apótekið er við Austurvöll. Það gerðist þannig að ég sparkaði í tóma flösku sem var á vegi mínum og hún fór í veg fyrir bíl sem koma akandi Pósthússtrætið og það skipti engum togum að út úr þessum bíl þustu 4 ungir karlmenn, þó eldri en ég var á þeim tíma og tóku til við að lumbra á okkur unglingunum. Þessir kumpánar voru frá Selfossi og voru í bæjarferð til að snapa slagsmál.
Ég man eftir því að menn voru barðir niður og rændir flottum leðurjökkum á planinu.. ég man eftir því að fólk var flutt upp á slysó í lögreglubílum og var oft þröngt á þingi afturí af misblóðugu fólki.. löggan sá um þetta því sjúkraflutningamenn voru uppteknir við að flytja þá sem voru alvarlega slasaðir eftir sum átökin í bænum..
Mín skoðun er sú að sú kynslóð sem er að taka við í dag, fólk upp úr tvítugt eru einstaklingar sem hafa fengið bómullaruppeldi og telja það vera ofbeldi ef einhver kallar það FÍFL.
P.s ég hef ekki séð hópslagsmál síðan 1980 í bænum !
Sýnileg löggæsla mikilvægust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég skil ekki alveg hvert þú ert að fara með þetta. Finnst þér ekkert að því að menn séu enn í dag barðir eins og harðfiskar niðri í bæ um helgar því þetta sé ekki jafnöfgafullt og í denn? Mér finnst þetta eins og að segja að Írakstríðið sé fínt því það nær aldrei seinni heimstyrjöldinni hvað varðar dauðsföll.
Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 23:36
ég sagði aldrei að mér finndist þetta í lagi, ég er að gagnrýna umfjöllunina sem virðist ganga út á það að fólk í dag sé verra en fólk var fyrir 15-30 árum. Ef eitthvað er hagar fólk sér í dag á margan hátt betur en á margan hátt einnig verr.. td hefur virðing hvert fyrir örðu minnkað talsvert og er það þjóðfélagslegt vandamál. en að taka miðbæinn fyrir og lýsa honum eins og einhverri vígstöð er bara bull og fjölmiðlaáróður í gúrkutíð. Ástandið í miðbænum hefur skánað ef eitthvað er og batnaði töluvert eftir lengingu opnunartíma veitingastaða ef miða á við árin 1970-1990.
En svo er spurning hvað það er sem fólk sækist eftir ? Þegar vel viðraði hér í vor og fólk vildi bara hafa það huggulegt þá kom "áfengislöggan2 og rak fólk inn fyrir dyrnar aftur.. kannski liggur vandinn hjá yfirvöldum og reglugerðum þessa lands en ekki hjá sauðsvörtum almúganum.
Óskar Þorkelsson, 15.8.2007 kl. 07:50
Það er alveg hárrétt að ástandið er töluvert ýkt. Vissulega er alltaf ákveðin hætta fólgin í því að hanga innan um ölvaðan skrílinn, en að halda því fram að ástandið fari alltaf síversnandi held ég að sé fyrst og fremst dæmigert heimsósómatal.
Og já, það er alveg rétt að ég held að fasismi á borð við það að agnúast út í að reykingafólk taki drykkina sína með sér þegar það skreppur út til að reykja gerir nákvæmlega ekkert til að bæta eitt né neitt. Þetta er jafnvel svo gróft að þeir sem reka Hressó eru knúnir til að meina fólki að taka með sér drykki inn í bakgarðinn, sem er algjörlega aflokaður! Ég veit ekki alveg hver tilgangurinn með því að banna fólki með lögum að taka með sér drykki út af vínveitingastöðum er, en það er næsta víst að svona vitleysisgangur getur einfaldlega ekki verið í anda þeirra.
Þannig að það er ýmislegt sem mætti endurskoða í þessum áfengislögum, svo sannarlega ...
Þarfagreinir, 15.8.2007 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.